Gæluverkefnin hrúgast upp inn á Alþingi

Það er athyglisvert að skoða málaskrá Alþingis síðustu dagana og vikurnar.  Það er greinilegt að ekkert þarf að gera í taka á erfiðleikum einstaklinga og atvinnurekstrar í landinu.   Það er greinilegt að ekki á að framlengja þau fáu góðu úrræði sem gripið hefur verið eftir hrun og oftar en ekki hafa verið með þeim formerkjum að tími til að nýta sér úrræðin hefur verið of naumur.

Þess í stað er lögð fram hver þingályktunartillagan á fætur annarri um hin ýmsu gæluverkefni þingmanna.  Sumar er út af fyrir sig ágætar, en oft væri betra að sömu þingmenn legðu meiri þunga í mikilvægari mál fyrir íslensku þjóðina.  

Nú hefur allur núverandi þingflokkur VG ásamt þeim 3 þingmönnum sem áður tilheyrðu þingflokknum lagt fram og dustað rykið af gömlu Alþýðubandalagsmáli og lagt til að Ísland segi sig úr Nató.  Mann setur hljóðan.  Flokkurinn er í ríkisstjórn með flokki sem stefnir að því að koma landinu inn í ESB með öllum tiltækum ráðum, þar með að fórna afkomu einstaklinga í landinu.   Þessi sami flokkur og leggur þetta til hefur staðið fyrir öllum verstu og vanhugsuðustu skattabreytingum sem fram hafa komið síðustu árin og vinnur markvisst að því að eyðileggja allt einkaframtak í landinu.  Ýmsar aðgerðir þessarar ríkisstjórnar hafa reyndar beint og óbeint fært landið enn fjær því að vera tækt í Evrópusambandið. 

Þessi sami flokkur hafði það í gegn að leggja niður Varnarmálastofnun alveg gjörsamlega án þess að hugsað væri út í hvernig koma mætti ýmsum nauðsynlegum verkefnum fyrir með skynsamlegum hætti án þess að draga úr þjóðaröryggi.   Nú vill flokkurinn að við göngum úr Nató og verðum án samstarfs um varnir landsins á sama tíma og lega landsins hefur sjaldan verið mikilvægari með tilliti til aukinn samgangna um norðurheimskautið.   Ég spyr hvað næst ?  Á að leggja niður Landhelgisgæsluna ?  Á að hleypa pólitískum flóttamönnum óhindrað inn í landið ?  Á svo að draga úr löggæslu og tollgæslu ?  Hvar endar þessi vitleysa ?


mbl.is Tillaga um úrsögn úr Nató
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónuvernd fyrir hverja ?

Ég held að annað tveggja þurfi að gera nú þegar.  Að gjörbreyta lögum um persónuvernd eða að leggja þessa stofnun niður.

 

Afgreiðslumaður á bókasafni má ekki fletta upp og gefa þeim sem er að taka bækur upplýsingar um það hvort hann var búinn að taka sömu bók áður.   Það má ekki vakta sumarbústaði og aðrar slíkar eigur með myndavélavöktun.  Það má ekki hafa myndavélar sem sýna óheiðarlega feður leggja á ráðin með barni sínu um hvernig hann geti stolið farsíma sem skilinn var eftir á borði í bakaríi.

 

En það er ekki hægt að taka við kvörtun um að Byr sparisjóður hafi óuppfærðar upplýsingar frá Lánstraust sem eru með upplýsingar sem voru orðnar úreldar frá því 2 og upp í 6 árum áður en viðkomandi átti við bankann erindi og fékk eins og kalda vatnsgusu í andlitið að hann væri með svo og svo langan lista af vanskilamálum hjá Lánstraust.

 

Það virðist líka vera í lagi að Íslensk stjórnvöld séu farin að haga sér eins og „Stóri bróðir í myndinni 1984“ eða eins og „Stazí í Austur-Þýskaland“ á kaldastríðsárunum.  Það eru ekki gerðar athugasemdir við að allar greiðslukortafærslur séu lesnar af sérstökum starfsmönnum ríkisins og ýmsum öðrum upplýsingum safnað um hinn almenna borgara.  Viðskiptaráðherra hyggst meira að segja herða ennþá reglur með því að setja í lög það sem áður var eingöngu í reglugerð og takmarka enn frekar frelsi einstaklinga, og nú segir Persónuvernd ekki orð.

 

Mörg önnur dæmi er hægt að nefna en ég læt þetta duga að sinni. 

 

Hvern er Persónuvernd að vernda og hverja ekki ?


Hvað eru kjarabætur ?

Um hvaða kjarabætur er þessi helsti varðhundur verðtryggingar og ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. að tala um ?   Við hverja krónu sem launin eru hækkuð þá fer meira en helmingur í skatta og gjöld, þökk sé skattastefnu stjórnvalda sem verkalýðshreyfingin styður.  Við hverja krónu sem laun hækka þurfa atvinnurekendur að taka á sig frá 22,23% til 25% að auki í viðbótarkostnað vegna launatengdra gjalda og tryggingargjalds.

Það eru því afskaplega litlar kjarabætur fólgnar í einhverri krónutölu- eða prósentuhækkun launa.   Aftur á móti munar verulega um leiðréttingar á persónuafslætti og tilfærslu á viðmiðunarmörkum skattþrepa.  Lækkun tryggingargjaldsins gefur atvinnurekstrinum aukið svigrúm til launahækkana.

Það sem skiptir máli er það sem upp úr umslögunum kemur mánaðarlega, ekki hver brúttófjárhæðin er.


mbl.is „Látum sverfa til stáls“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dugar ekki Landeyjahöfn ?

Þjóðhátíðarnefnd Vestmannaeyja notar sömu aðferð til að draga úr eftirspurn og einkaneyslu og hækkar verð eins og ríkisstjórnin með fjármálaráðherra í broddi fylkingar gerir.

Svo mikið má hækka skatta, gjöld og aðgangseyri að þetta fari yfir þolmörk og þar með snarfellur tekjustofninn og eftirspurnin.

Annars hélt ég að Landeyjahöfnin ein og sér sæi alveg um að draga úr aðsókn til Vestmannaeyja.  Núna þegar aldrei er hægt að treysta á ferðir milli lands og eyja þá förum við "landkrabbar" ekki að erindislausu til eyja og varla einu sinni í þeim tilgangi að gera okkur glaðan dag, því það er alls óvíst hvort og hvenær við náum að komast aftur á fasta landið.

Ég kalla enn og aftur eftir því að þjóðin verði upplýst um það hversu miklum fjármunum er búið að eyða í þetta gæluverkefni "Landeyjahöfn" og hversu miklum fjármunum er gert gert ráð fyrir að eytt sé í þetta ævintýri í ár og á komandi árum.


mbl.is Miðaverð á þjóðhátíð hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjaraviðræður um allt annað en laun

Samningaviðræður aðildarsambanda ASÍ og SA hafa gengið út á allt annað en það sem kjarasamningar eiga að snúast um.  Minnst er verið að fjalla um raunverulega launafjárhæðir og hvað það þá sem kemur upp úr launaumslögunum við útborgun.  Þess í stað er vikum og mánuðum eytt í karp um mál sem eiga að vera til umfjöllunar á öðrum vettvangi.  Það er karpað fram og aftur um sjávarútvegsstefnuna.  Samtökin skiptu sér með mjög óeðlilegum hætti af Icesave kosningum og höfðu í hótunum við lægst launaða fólkið í landinu um að það fengi engar kjarabætur og enga nýja kjarasamninga nema að það kysi eins og forysta skipaði þeim.   Ýmis önnur mál eru einnig að tefja samningaferlið og þetta sýnir bara enn og aftur að forystumenn launþegasamtaka eru komnir svo langt frá sínu fólki að það er ekki einu sinni "gjá" þar á milli, það skilur að "himin og haf" milli forystumannanna og almennra félagsmanna.   Enda eru flestir þessara forystu manna með 3 - 12 mánaða laun sinna félagsmanna á mánuði.

Það er orðin hefði fyrir því og má að mestu rekja það til þjóðarsáttarsamninga í kringum 1990 (þó það tíðkaðist að hluta til fyrr einnig) að ríkið komið að samningagerð með einhverjum yfirlýsingum þar sem samtök launþega og atvinnurekenda koma sameiginlega í gegnum einhverjum kröfum á ríkið.

Það sem númer eitt þyrfti að komast í gegn núna í samskiptum við ríkisstjórnina er að yfirlýsing sem núverandi forsætisráðherra og þáverandi félagsmálaráðherra skrifaði undir 17.febrúar 2008 taki gildi að nýju og við það sem þar er lofað verði staði og aðrar ákvarðanir teknar til baka.

Þar var samið um ákveðnar hækkanir á persónuafslætti og að auk því lofað að almenn hækkun persónuafsláttar árlega yrði í samræmi við lög sem sett höfðu verið um slíkt og fylgdu vísitöluhækkunum.  Eitt fyrsta verk norrænu velferðarstjórnarinnar var að falla frá þessu.   Væri hins vegar staðið við þetta þá myndi það þýða umtalsverða "raunhækkun" launa, því útborgun launa myndi strax hækka verulega án þess að það kostaði atvinnulífið fjármuni, en hækkunin skilar sér síðan beint út í þjóðfélagið í formi meiri kaupgetu og þar með til baka til ríkissjóðs í formi aukinna tekna.

Í yfirlýsingunni 17. febrúar 2008 var einnig að finna ýmislegt tengt starfsendurmenntunarsjóði og loforð um að sett verði lög um hann.  Lagafrumvarp um þetta efni er búið að sofna á Alþingi þing eftir þing síðan og ekkert bólar á því að staðið verði við þetta.   Hvernig stendur á því að ASÍ og SA fylgja því ekki eftir að þetta fari í gegn ?  Í dag er það þannig að eingöngu atvinnurekendur bera 0,13% gjald í þennan sjóð en aðrir sem að því áttu að koma ekkert.

Fyrir utan ofangreint er mikilvægt hagsmunamál að tryggingargjald verði endurskoðað og lækkað.  Tryggingargjald er samansett úr mörgum þáttum og löngu er orðið tímabært að breyta þeim hlutföllum og áherslum.  Þegar kom að því að stórhækka þurfti tryggingargjald (alls 61% hækkun) 2009 og 2010 þá kom í ljós að í 5,34% tryggingargjaldi var sáralítið hlutfall ætlað atvinnuleysistryggingasjóði og ábyrgðarsjóði launa.  Hækkunin úr 5,34% í 8,65% var því eingöngu til að styrkja þessa sjóði.   Það léttir á atvinnurekstrinum, þar með talið sjálfstætt starfandi aðilum að gjaldið sé lækkað og nýta má þá lækkun til hækkunar launa.


mbl.is Viðræðurnar af stað á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra leyndarmálið

http://blogg.visir.is/thorgu/2011/04/24/er-rikisabyrg%c3%b0-a-ollu-bankadraslinu-an-heimildar-al%c3%beingis/

Stóra leyndarmálið eftir hrunið er að það eru í raun litlar sem engar ríkisábyrgðir á innstæðum.  Engar breytingar voru gerðar á tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta og því giltu í raun eldri lög áfram.  

Það voru hins vegar aftur og aftur samþykkt lög um "ríkisábyrgð" á innstæðum erlendis á Icesave reikningum, en sem betur fer stóð þjóðin í lappirnar og hafnaði því með afgerandi hætti.  Ógeðfelld afskiptasemi ASÍ og Samtaka atvinnulífsins hefur sennilega fengið fleiri til að hugsa málið en ella.

Nú er markvisst verið að þjappa bankakerfinu saman og enginn veit hver á meginhlutann í Íslandsbanka og Arionbanka.  Fari þeir bankar á hausinn, hver ber þá ábyrgð á innstæðum ? Hver mun þá endurreisa þá að nýju ?  Ætli það verði nokkur ?

Aðferðir stjórnvalda til að koma í veg fyrir algjört kerfishrun og að róa almenning þannig að hann þeysti ekki inn í bankastofnanir og tæmdi sína reikninga þar var mismunandi eftir löndum.  Bretar og Hollendingar ákváðu upp á sitt eindæmi að greiða innstæðueigendum Icesave reikninga allar sínar innstæður (þ.e. almenningi) og komu þannig í veg fyrir "panicástand" í sínum löndum.   Á Íslandi var það hin frægða "guð hjálpi Íslandi" ræða Geirs H Haarde og yfirlýsingar hans, Árna M. Mathiessen og Björgvins G. Sigurðssonar um að allar innlendar innstæður væru að fullu tryggðar og myndu færast án nokkurra skerðinga yfir í ný hlutafélag sem tæku yfir innlendan rekstur föllnu bankana. 

Fyrir þessum yfirlýsingu þremenninganna var hins vegar ekki nokkur innstæða.  Aldrei var lagt fram lagafrumvarp þess efnis (sem ég man þó eftir að þeir hafi látið út úr sér að væri væntanlegt), en hins vegar er á mjög almennan hátt tekið á þessu í neyðarlögunum, en þó ekki berum orðum hvað þá að í þeim sé lögum um TIF breytt neitt.  Nú tæpum 3 árum eftir hrun er ekki ennþá búið að taka á þessum málum.

Það sem þessar yfirlýsingar gerðu að verkum var að innstæður jafnt einstaklinga sem lögaðila voru færðar yfir hvort sem þær voru stórar eða smáar og greiðslukerfið innanlands hélt velli, heimabankar, debetkort og annað virkaði 100% sem allt saman var afskaplega gott og kom sem vel fyrir viðkomandi aðila.

Hitt er annað mál að það er mjög umhugsunarvert að svona yfirlýsingar út í bláinn án þess að hafa lög frá Alþingi á bak við sig hljóta að vera afar vafasamar.  Á sama tíma skorti Alþingi allt, segi og skrifað Alþingi allt" allan kjark og þor til þess að setja lög um "tímabundna frystingu" allra eigna allra stærri eigenda og fyrrum stjórnenda bankakerfisins sem og e.t.v. fleiri "auðmanna".   Ástæðan var hræðsla við hugsanlegar málsóknir og skaðabótaskyldu ríkisins vegna þess.  Allir vita í dag að þau örfáu mál sem upp hefðu getað komið hefðu verið hrein smámál miðað við þau útgjöld sem þegar er búið að fara út í á mörgum sviðum og þær röngu ákvarðanir sem teknar hafa verið um mörg mál.

Dæmi um mjög vafasamar og fast að því glæpsamlegar ákvarðanir framkvæmdavaldsins án þess að hafa löggjafarvaldið á bak við sig voru:  Greiðsla inn í peningamarkaðssjóði haustið 2008, björgun Sjóvár-Almennra (algjörlega óskiljanlegt og tryggði enga hagsmuni einstaklinga í landinu), fyrirfram glötuð lán til Straums-Burðaráss og til VBS-fjárfestingabanka.   Þessar ákvarðanir eru allar á reikning þess fjármálaráðherra sem starfaði á hverjum tíma.

Það er alveg ljóst að lög um tímabundna frystingu eigna ákveðins hóps "auðmanna" hefði mögulega geta komið í veg fyrir ákveðna fjármagnsflutninga og feluleik, auk þess sem þessar eignir hefðu mögulega nýst íslenska ríkinu upp í kostnað við hrunið.  Að auki hefði það að setja þak á fjárhæðir sem færst gætu yfir með ríkisábyrgð lækkað verulega útgjöld ríkisins við að endurreisa bankakerfið.

Það sem ég og margir kjósendur vonuðumst til að gæti gerst haustið 2008 var að nú myndu 63 Alþingismenn taka sig saman og snúa bökum saman, sleppa öllum deilum innbyrðis og mynda sterka öfluga heild sem tæki af alvöru og festu á öllu því sem gera þyrfti.  Í stað þess deildu menn sem aldrei fyrr og kepptust við að sópa undir teppið því sem stór hluti þingmanna og ráðherra hafði tekið þátt í að gera.  Frá hruni hafa síðan flestar aðgerðir sem frá Alþingi og þeim 3 ríkisstjórnum sem setið hafa verið á hraða snigilsins og tímanum verið eytt í alls konar gæluverkefni og ótímabær málefni.  Þegar unnið er hröðum höndum er hins vegar verið að vinna í málum sem koma almennum kjósendum og öðrum skattgreiðendum þessa lands illa.   Skattkerfisbreytingar eru gerðar af mjög illa ígrunduðum ástæðum, reynt var að koma í veg fyrir að fólk gæti náð rétti sínum varðandi lög sem á þeim höfðu verið brotin varðandi lánafyrirgreiðslur fjármálakerfisins, þagga á endanlega niður í annars gjörsamlega máttlausum fjölmiðlum, og nú síðast upplýsingalögin.

Ný upplýsingalög eru ein versta aðför að lýðræðinu og tjáningarfrelsi sem sést hafa í vestrænum ríkjum í seinni tíð.  Þau minna á aðferðir fasista í þeim löndum sem þeir réðu ríkjum, aðferðir í austantjaldslöndunum á árum kalda stríðsins, að ógleymdum tilraunum til sömu hluta í USA.

Það sem þessi lög munu m.a. festa í sessi er, að allar aðgerðir og öll skjöl sem síðustu 3 ríkisstjórnir (fyrir og eftir hrun) hafa  unnið með, þar með talið öll skjöl um Icesave, aðdraganda bankahrunsins, það sem menn vissu en gerðu ekkert í, rangar ákvarðanir (og e.t.v. réttar stundum) og fjölmargt annað sem máli getur skipt, verður hulið leyndarhjúpi í 60-120 ár og hvorki verður hægt að nýta til sakfellinga, hvað þá að sagnfræðingar nútíðar og framtíðar geti sagt okkur og afkomendum okkar, söguna eins og hún var í raun og veru.

Einstaklingar og forsvarsmenn lögaðila ættu að fara afskaplega varlega með sína fjármuni (sé eitthvað afgangs þ.e.a.s.) og gæta að því að kynna sér lög sem eru í gildi (ekki munnlegar yfirlýsingar) um tryggingar á bak við eignir sínar.  Það ætti að vera skylda fjármálafyrirtækja að láta innstæðueigendum og fjárfestum í té skriflega réttar upplýsingar um hver staðan sé í þessum málum.  Hversu mikið er tryggt á almennum bankareikningum ? hver er tryggingin ef einhver á bak við allskonar sjóði ? hver er kennitala raunverulegs fjárvörsluaðila ?

Fólk á rétt á því að vita hvenær það er að leggja fé í áhættulaus og að fullu tryggð málefni, og jafnframt að vita hvenær verið er að sýsla með áhættufjármuni, hver sé áhættan og hver beri þá áhættu.  

Starfsmenn gamla bankakerfisins frömdu svívirðilegar og siðlausar athafnir í lok september og byrjun október (kannski að undirlægi sinni yfirmanna eða kannski vegna eigin vonar um bónusa og fríðindi) þegar grunlaust fólk var blekkt og afleiðingin var að margir glötuðu sínu fé.  Því miður var við endurreisn bankakerfisins ekki hreinsað til hjá forsvarsmönnum, heldur þeir í mörgum tilfellum endurráðnir.  Nýju bankarnir reynda nú hver af öðrum að fegra sínar ímyndir, en rétt er að horfa á þær glansmyndir með gagnrýni og stíga varlega öll skref í samskiptum við bankana.  Látum ekki blekkja okkur aftur.

Til þess að reka þjóðfélagið, halda atvinnulífinu gangandi, koma af stað nýjum atvinnugreinum eða nýrri starfsemi og sem og að endurvekja eldri starfsemi þarf að sjálfsögðu alltaf áhættufjármagn.  Vonandi verða áfram til einstaklingar, fyrirtæki og fjármálafyrirtæki sem eru tilbúin í að taka ákveðna áhættu.   En það þarf að vera hverjum og einum ljóst og allt upp á borðinu með það hvenær hann tekur áhættu og hvenær ekki.


Gleðileg jól

Óska öllum bloggurum sem og öðrum landsmönnum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Jafnrétti verður ekki náð með lögum

Framboð til stjórnlagaþings er sennilegasta lýðræðislegasta form sem fram hefur komið á síðustu áratugum til þess að einstaklingar geti boðið fram krafta sína til þess að hafa áhrif.  Engin prófkjör, engir stjórnmálaflokkar, bara einstaklingar sem hver og einn þurfti að safna ákveðnum fjölda meðmælenda.   En hvað gerist svo?  Af 523 frambjóðendum eru aðeins 30% konur og þetta gerist á 35 ára afmæli kvennafrídagsins.  Í landinu eru svipuð hlutföll karla og kvenna og ef ég man rétt heldur fleiri konur.  Hvað er að ?  Hvað á þetta að þýða að láta svona tækifæri fram hjá sér fara ?  Eða er tilfellið að það eru kannski ekki nema um 30% kvenna sem hafa áhuga á stjórnmálum og tengdum málum ?  Til hvers er verið að setja allskonar kynjakvóta (þó ekki til sjós - skrítið samt), þegar áhuginn í raun er ekki meiri ? 

Í upphafi framboðs til þessa þings kom í ljós að það voru mjög fáar konur sem buðu sig fram.  Hvað var þá nefnt opinberlega ?  Að setja sérstök lög eða reglugerð sem kæmi því til leiðar að hlutföll kvenna og karla væru eins.  Maður verður gjörsamlega öskureiður þegar svona er sagt.  Hvað á þetta að þýða að ætla alltaf að setja lög til að tryggja rétt annars kynsins á kostnað hins.

En nú eru kosningarnar eftir og þá fjöldi kvenframbjóðenda sé aðeins 30% þá hafa konur ennþá tækifæri til að hafa áhrif.  Nú duga engar afsakanir lengur.


Gervimaður útlönd 15. skuldahæsti einstaklingurinn

Var ekki Gervimaður útlönd, skráður 15 mesti skuldarinn skv. lista í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis ?  :-)
mbl.is Langt í gervimanninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstakur saksóknari stendur sig vel

Það er engin elsku mamma hjá sérstökum saksóknara þegar hann fer í gang.  Sigurður Einarsson hefði betur svarað boðun og mætt af fúsum og frjálsum vilja í yfirheyrslu en að láta stimpla sig meðal mestu glæpamanna heims og láta lýsa eftir sér hjá Interpol.  Sigurði er náttúrulega ljóst að hann verður handtekinn og krafist gæsluvarðhalds yfir honum eins og Magnúsi og Hreiðari. 

Til hvers hann er að reyna að komast hjá handtöku er stór spurning og rannsóknarefni hvað hann hefur verið að fást við síðan félagar hans voru handteknir fyrir helgi.


mbl.is Interpol lýsir eftir Sigurði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón bloggar

Höfundur

Jón Óskarsson
Jón Óskarsson
Áhugamaður um fréttir og málefni líðandi stundar.  Er viðurkenndur bókari og tek sem slíkur að mér skattskil, ársuppgjör, bókhald og launaútreikninga.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband