Stóra leyndarmálið

http://blogg.visir.is/thorgu/2011/04/24/er-rikisabyrg%c3%b0-a-ollu-bankadraslinu-an-heimildar-al%c3%beingis/

Stóra leyndarmálið eftir hrunið er að það eru í raun litlar sem engar ríkisábyrgðir á innstæðum.  Engar breytingar voru gerðar á tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta og því giltu í raun eldri lög áfram.  

Það voru hins vegar aftur og aftur samþykkt lög um "ríkisábyrgð" á innstæðum erlendis á Icesave reikningum, en sem betur fer stóð þjóðin í lappirnar og hafnaði því með afgerandi hætti.  Ógeðfelld afskiptasemi ASÍ og Samtaka atvinnulífsins hefur sennilega fengið fleiri til að hugsa málið en ella.

Nú er markvisst verið að þjappa bankakerfinu saman og enginn veit hver á meginhlutann í Íslandsbanka og Arionbanka.  Fari þeir bankar á hausinn, hver ber þá ábyrgð á innstæðum ? Hver mun þá endurreisa þá að nýju ?  Ætli það verði nokkur ?

Aðferðir stjórnvalda til að koma í veg fyrir algjört kerfishrun og að róa almenning þannig að hann þeysti ekki inn í bankastofnanir og tæmdi sína reikninga þar var mismunandi eftir löndum.  Bretar og Hollendingar ákváðu upp á sitt eindæmi að greiða innstæðueigendum Icesave reikninga allar sínar innstæður (þ.e. almenningi) og komu þannig í veg fyrir "panicástand" í sínum löndum.   Á Íslandi var það hin frægða "guð hjálpi Íslandi" ræða Geirs H Haarde og yfirlýsingar hans, Árna M. Mathiessen og Björgvins G. Sigurðssonar um að allar innlendar innstæður væru að fullu tryggðar og myndu færast án nokkurra skerðinga yfir í ný hlutafélag sem tæku yfir innlendan rekstur föllnu bankana. 

Fyrir þessum yfirlýsingu þremenninganna var hins vegar ekki nokkur innstæða.  Aldrei var lagt fram lagafrumvarp þess efnis (sem ég man þó eftir að þeir hafi látið út úr sér að væri væntanlegt), en hins vegar er á mjög almennan hátt tekið á þessu í neyðarlögunum, en þó ekki berum orðum hvað þá að í þeim sé lögum um TIF breytt neitt.  Nú tæpum 3 árum eftir hrun er ekki ennþá búið að taka á þessum málum.

Það sem þessar yfirlýsingar gerðu að verkum var að innstæður jafnt einstaklinga sem lögaðila voru færðar yfir hvort sem þær voru stórar eða smáar og greiðslukerfið innanlands hélt velli, heimabankar, debetkort og annað virkaði 100% sem allt saman var afskaplega gott og kom sem vel fyrir viðkomandi aðila.

Hitt er annað mál að það er mjög umhugsunarvert að svona yfirlýsingar út í bláinn án þess að hafa lög frá Alþingi á bak við sig hljóta að vera afar vafasamar.  Á sama tíma skorti Alþingi allt, segi og skrifað Alþingi allt" allan kjark og þor til þess að setja lög um "tímabundna frystingu" allra eigna allra stærri eigenda og fyrrum stjórnenda bankakerfisins sem og e.t.v. fleiri "auðmanna".   Ástæðan var hræðsla við hugsanlegar málsóknir og skaðabótaskyldu ríkisins vegna þess.  Allir vita í dag að þau örfáu mál sem upp hefðu getað komið hefðu verið hrein smámál miðað við þau útgjöld sem þegar er búið að fara út í á mörgum sviðum og þær röngu ákvarðanir sem teknar hafa verið um mörg mál.

Dæmi um mjög vafasamar og fast að því glæpsamlegar ákvarðanir framkvæmdavaldsins án þess að hafa löggjafarvaldið á bak við sig voru:  Greiðsla inn í peningamarkaðssjóði haustið 2008, björgun Sjóvár-Almennra (algjörlega óskiljanlegt og tryggði enga hagsmuni einstaklinga í landinu), fyrirfram glötuð lán til Straums-Burðaráss og til VBS-fjárfestingabanka.   Þessar ákvarðanir eru allar á reikning þess fjármálaráðherra sem starfaði á hverjum tíma.

Það er alveg ljóst að lög um tímabundna frystingu eigna ákveðins hóps "auðmanna" hefði mögulega geta komið í veg fyrir ákveðna fjármagnsflutninga og feluleik, auk þess sem þessar eignir hefðu mögulega nýst íslenska ríkinu upp í kostnað við hrunið.  Að auki hefði það að setja þak á fjárhæðir sem færst gætu yfir með ríkisábyrgð lækkað verulega útgjöld ríkisins við að endurreisa bankakerfið.

Það sem ég og margir kjósendur vonuðumst til að gæti gerst haustið 2008 var að nú myndu 63 Alþingismenn taka sig saman og snúa bökum saman, sleppa öllum deilum innbyrðis og mynda sterka öfluga heild sem tæki af alvöru og festu á öllu því sem gera þyrfti.  Í stað þess deildu menn sem aldrei fyrr og kepptust við að sópa undir teppið því sem stór hluti þingmanna og ráðherra hafði tekið þátt í að gera.  Frá hruni hafa síðan flestar aðgerðir sem frá Alþingi og þeim 3 ríkisstjórnum sem setið hafa verið á hraða snigilsins og tímanum verið eytt í alls konar gæluverkefni og ótímabær málefni.  Þegar unnið er hröðum höndum er hins vegar verið að vinna í málum sem koma almennum kjósendum og öðrum skattgreiðendum þessa lands illa.   Skattkerfisbreytingar eru gerðar af mjög illa ígrunduðum ástæðum, reynt var að koma í veg fyrir að fólk gæti náð rétti sínum varðandi lög sem á þeim höfðu verið brotin varðandi lánafyrirgreiðslur fjármálakerfisins, þagga á endanlega niður í annars gjörsamlega máttlausum fjölmiðlum, og nú síðast upplýsingalögin.

Ný upplýsingalög eru ein versta aðför að lýðræðinu og tjáningarfrelsi sem sést hafa í vestrænum ríkjum í seinni tíð.  Þau minna á aðferðir fasista í þeim löndum sem þeir réðu ríkjum, aðferðir í austantjaldslöndunum á árum kalda stríðsins, að ógleymdum tilraunum til sömu hluta í USA.

Það sem þessi lög munu m.a. festa í sessi er, að allar aðgerðir og öll skjöl sem síðustu 3 ríkisstjórnir (fyrir og eftir hrun) hafa  unnið með, þar með talið öll skjöl um Icesave, aðdraganda bankahrunsins, það sem menn vissu en gerðu ekkert í, rangar ákvarðanir (og e.t.v. réttar stundum) og fjölmargt annað sem máli getur skipt, verður hulið leyndarhjúpi í 60-120 ár og hvorki verður hægt að nýta til sakfellinga, hvað þá að sagnfræðingar nútíðar og framtíðar geti sagt okkur og afkomendum okkar, söguna eins og hún var í raun og veru.

Einstaklingar og forsvarsmenn lögaðila ættu að fara afskaplega varlega með sína fjármuni (sé eitthvað afgangs þ.e.a.s.) og gæta að því að kynna sér lög sem eru í gildi (ekki munnlegar yfirlýsingar) um tryggingar á bak við eignir sínar.  Það ætti að vera skylda fjármálafyrirtækja að láta innstæðueigendum og fjárfestum í té skriflega réttar upplýsingar um hver staðan sé í þessum málum.  Hversu mikið er tryggt á almennum bankareikningum ? hver er tryggingin ef einhver á bak við allskonar sjóði ? hver er kennitala raunverulegs fjárvörsluaðila ?

Fólk á rétt á því að vita hvenær það er að leggja fé í áhættulaus og að fullu tryggð málefni, og jafnframt að vita hvenær verið er að sýsla með áhættufjármuni, hver sé áhættan og hver beri þá áhættu.  

Starfsmenn gamla bankakerfisins frömdu svívirðilegar og siðlausar athafnir í lok september og byrjun október (kannski að undirlægi sinni yfirmanna eða kannski vegna eigin vonar um bónusa og fríðindi) þegar grunlaust fólk var blekkt og afleiðingin var að margir glötuðu sínu fé.  Því miður var við endurreisn bankakerfisins ekki hreinsað til hjá forsvarsmönnum, heldur þeir í mörgum tilfellum endurráðnir.  Nýju bankarnir reynda nú hver af öðrum að fegra sínar ímyndir, en rétt er að horfa á þær glansmyndir með gagnrýni og stíga varlega öll skref í samskiptum við bankana.  Látum ekki blekkja okkur aftur.

Til þess að reka þjóðfélagið, halda atvinnulífinu gangandi, koma af stað nýjum atvinnugreinum eða nýrri starfsemi og sem og að endurvekja eldri starfsemi þarf að sjálfsögðu alltaf áhættufjármagn.  Vonandi verða áfram til einstaklingar, fyrirtæki og fjármálafyrirtæki sem eru tilbúin í að taka ákveðna áhættu.   En það þarf að vera hverjum og einum ljóst og allt upp á borðinu með það hvenær hann tekur áhættu og hvenær ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jón bloggar

Höfundur

Jón Óskarsson
Jón Óskarsson
Áhugamaður um fréttir og málefni líðandi stundar.  Er viðurkenndur bókari og tek sem slíkur að mér skattskil, ársuppgjör, bókhald og launaútreikninga.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 921

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband