Færsluflokkur: Bloggar

Persónuafsláttur

Úr yfirlýsingu þáverandi ríkisstjórnar 17. febrúar 2008 í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

"Persónuafsláttur hækki um 7 þúsund krónur á næstu þremur árum, umfram almenna verðuppfærslu. Árið 2009 hækkar hann um 2.000 krónur, árið 2010 um 2.000 krónur og árið 2011 um 3.000 krónur."

Þetta var n.b. ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Nú ætlar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að svíkja hluta af þessu loforði með því að hækka persónuafslátt ekki um verðuppfærslu en hækka hann þess í stað um einungis þær 2.000 krónur sem nefndar eru sem umframhækkun hér að ofan.

 


Gríðarlegar skattahækkanir

Það virðist eiga að lauma í gegn alls kyns hækkunum á sköttum og þær hækkanir fá ekki mikla umfjöllun.

Dæmi um þetta er tryggingargjaldið sem leggst á alla atvinnustarfsemi í landinu þar með talið sjálfstætt starfandi einstaklinga er orðin 61% frá því fyrir 1.júlí s.l. Ef marka má fréttaflutning í gær þá á að hækka gjaldið um 1,6 prósentustig, sem þýðir þá að það fer í 8,6% en var 5,34% fyrir 1.júlí.

Fjármagnstekjuskatturinn er hækkaður um 80% frá sama tíma.  Var 10% síðan 15% eftir 1.júlí og nú 18%.

Þessi skattur bitnar mjög á þeim einstaklingum sem eru að leigja íbúðarhúsnæði og annað hvort veldur því að farið verður í sama gamla farið að samið sé um húsaleigu "svart" eða að þeim fækkar sem eru tilbúnir að bjóða íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum til fólks.  Ætla má að nú geti þörf fyrir leiguhúsnæði aukist eftir því sem fleiri lenda í því að missa húsnæði sitt og þá er verið að loka á að framboð á húsnæði á viðráðanlegu verði sé til staðar.

Reyndar er það svo að þegar maður les fréttatilkynningu Fjármálaráðuneytisins þá kemur fram að skattstofn leigutekna verði 70% af leigutekjum (og þá væntanlega ekkert frítekjumark á þeim fjármagnstekjum - það er reyndar óljóst í tilkynningunni).

Dæmi = Íbúðarhúsnæði leigt á 100.000 á mánuði þýddi að leigusali greiddi á árinu 2008 kr. 120.000 á ári í fjármagnstekjuskatt.

Sama húsnæði nú þýðir skatt upp á kr. 151.200 á árinu 2010.   Þetta er hækkun upp á 26%. Raunskattlagning eykst úr 10% í 12,6%

Skattkerfisbreytingin þýðir ein og sér að hækka þarf húsaleigu um 3% til þess að eftir standi sama fjárhæð eftir skatt og fyrir.  Á sama tíma er leiguverð á markaði að lækka svo þessi skattlagning gerir leigusala erfiðara að standa undir rekstri hins leigða húsnæðis.

Við sem viljum réttlátt skattkerfi og að allir greiði það sem þeim ber í skatta hverju sinni höfum hvatt fólk til þess að gefa upp leigutekjur og greiða af því fjármagnstekjuskatt en gera sig ekki að skattsvikurum að óþörfu.  Hvað á maður að segja núna við þetta sama fólk sem fær skyndilega á sig ríflega fjórðungshækkun skattsins ?

Þessi skattlagning bitnar m.a. á þeim hópi fólks sem lenti í því að eiga á sama tíma tvær eignir þegar hrunið varð, þ.e. var e.t.v. að byggja og ekki búið að selja eldri fasteign.  Úrræði þessa fólks til þess að tapa ekki öllu sínu er að reyna að leigja út aðra eignina en nú á að þjarma enn frekar að þessu fólki með skattahækkun.   Þetta fólk fær þessa hækkun á sig til viðbótar algjörum forsendubresti á lánum sem og stórlækkun fasteignaverðs.  Þarna er ríkisstjórnin að stuðla að enn frekari eignaupptöku.


Skatttekjur af séreignarlífeyrissparnaði

Það er alveg makalaust að núverandi ríkisstjórn sem kennir sig við velferð og að hún hugsi um hag eldra fólks og þá tekjuminni, skuli ekki vilja hlusta á tillögur um skattlagningu lífeyrissjóðs.   Helstu rökin gegn því er að verið sé að ganga á skattstofna framtíðarinnar.  Við skulum skoða það nánar.Þessi ríkisstjórn vill semsagt halda áfram að skattleggja þá sem eru komnir á lífeyrisaldur.   Málið snýst nefnilega um það að ef skattgreiðslur af lífeyrissjóði eru geymdar fram að því að lífeyrir er tekinn út að þá fær "gamla fólkið" minna útborgað þegar að því kemur.Skattlagning núna strax í dag hjálpar til með mjög einfaldri aðgerð að stoppa upp í fjárlagagatið og nær í margfalt meiri tekjur en margþrepa áætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir.   Það að skattleggja lífeyrissjóðinn núna þýðir að þegar kemur að töku lífeyris þá á fólk þá peninga "skuldlausa" og fær þá 100% útborgaða en ekki með allt að 40% skattlagningu.

Eins og sjá má í fyrri færslu hjá mér þá reiknaði ég út hvað það þýddi í skattahækkunum og þar með auknum tekjum fyrir ríki og sveitarfélög að gera þá kerfisbreytingu að fara að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði.  Á þetta sem og að ná í skatt af þeim lífeyri sem til er í landinu óútgreiddur hefur ekki mátt heyra á minnst af varðhundum lífeyrissjóðakerfisins, sérstaklega ASÍ sem og núverandi ríkisstjórn.

Til þess að koma til móts við efasemdarfólkið í þessum málum þá er einfalt mál að byrja á því að skattleggja séreignarlífeyrissjóðinn og bíða með hin almenna lífeyrissjóð.  En ég vil reyndar í leiðinni skattleggja innborgun í séreignarsjóðina án þess að það bitni á útborguðum launum einstaklinga. 

Best væri þó að skattleggja allar innborganir í lífeyrissjóðina strax, ekki bara séreignarsparnaðinn.


Vinstri menn þurfa alltaf að flækja skattheimtu

Nú á að fjölga vsk þrepum úr 2 í 3 þrep.  

Hækkun virðisaukaskatts í ferðaþjónustunni (veitingastarfsemi og sennilega gistingu) fer úr 7% í 14% eða 100% hækkun á vsk hluta þeirrar þjónustu.

Hækkun úr 24,5% í 25% er ekki óeðlileg og hefði raunar átt að komast á strax 1.janúar 2009, en sú breyting gerir alla útreikninga á vsk auðveldari því nú er um 20% af söluverði að ræða en ekki 19,67871% eins og áður.

Hins vegar þarf að fara í þá vitleysu að gera þessar breytingar í tveimur áföngum, þann 1.janúar og þann 1.mars 2010, í stað þess að fara í breytingarnar allar á sama degi og það strax frá áramótum.

Svona rugl veldur bókhaldslegum óþægindum hjá öllum rekstraraðilum landsins.  Eykur álag hjá innheimtuaðilum og gerir allt eftirlit erfiðara og flóknara.


mbl.is Þriggja þrepa vsk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listi yfir vanskil til ársreikningaskrár

Skyndileg ákvörðun núverandi ríkisskattstjóra um birtingu lista á heimasíður rsk kemur í framhaldi af óheppilegri yfirlýsingu hans í fréttatilkynningu fyrr í mánuðinum, um að ákveðið fyrirtæki hefði ekki skilað inn ársreikningum.  Sú yfirlýsing hlýtur að vera á mörkum þess að standast jafnræðisreglur sem skattyfirvöldum bera að fara eftir.  En svona opinber umfjöllum um málefni eins fyrirtækis hlýtur að vera á gráu svæði þegar hún kemur úr þessari átt.

Það er í sjálfu sér hið besta mál að birta lista eins og þann sem er að finn á síðunni, en mér finnst persónulega að það sé fullsnemmt að vera að setja 2008 ársreikningsskilin þarna inn.  Þessa dagana eru endurskoðendur og bókarar í óða önn að senda inn ársreikninga og það tekur allt upp í  viku hjá Ársreikningaskrá, sökum anna, að staðfesta móttöku.  Á meðan eru fyrirtæki þarna inni á listanum.  Geta má þess í leiðinni að stuttu eftir að listinn birtist var sá hluti heimasíðu rsk sem tekur á móti ársreikningum óvirkur í heilan dag vegna uppfærslu.

Öðru máli gegnir með fyrirtæki sem ekki hafa skilað ársreikningi 2007 og fyrr - það er ekkert að því að þetta birtist þarna og eins er ekkert að því að þann 1.nóvember n.k. birtist listinn með ósendum ársreikningum vegna 2008 en þann dag birtist álagning á fyrirtæki.

Það var í framhaldi af samþykkt EES samningsins sem lög voru sett um ársreikningaskrá en dagsetning skila sem fram kemur þar er ekki í samræmi við þá fresti sem endurskoðendur og aðrir sem atvinnu hafa af því að ganga frá skattframtölum hafa til að skila.  Ársreikningi ber að skila með framtali lögaðila og það er einfaldlega afar hentugt að senda til ársreikningaskrár samhliða skilum á framtali.  Slíkt kemur í veg fyrir að misræmi sé á milli þessara tveggja ársreikninga vegna leiðréttinga sem fram kunn að koma fram á síðustu stundu við skil skattframtals.

Það er því harkalegt og að mörgu leiti ósanngjarnt að birta lista yfir fyrirtæki sem ekki hafa skilað ársreikningi 2008 svona snemma eins og fyrr segir, þrátt fyrir að komið sé fram yfir þá dagsetningu sem er að finna í lögum um ársreikningaskrá.


Bíðum frekari frétta

Áður en ég hrópa húrra fyrir Íslandsbanka, þá vil ég bíða og sjá hvernig hinir bankarnir og aðrir lánveitendur í landinu ætla að bregðast við.  Einnig vil ég sjá tillögur félagsmálaráðherra nákvæmlega útfærðar.

Ýmsar spurningar vakna við fyrstu fréttir af bæði hugmyndum Íslandsbanka sem og félagsmálaráðherra. 

Meðal þess eru spurningar um hvort vextir óverðtryggðra íbúðarlána upp á 7,5% séu fastir vextir eða taki breytingum með tilvísun í t.d. stýrivexti og/eða verðbólgu.   Þannig er að ef verðbólgumarkmið um 2,5% verðbólgu næst einhvern tíma á allra næstu misserum þá væru ofangreindir fastir vextir ígildi um 4,88% vaxta sem er spurning hvort teljist í hinum vestræna heimi vera ásættanlegir íbúðalánavextir.  Ég tel þá of háa.

Upp hefur komið í umræðunni spurning um það hvort leiðir Íslandsbanka geti hentað fólki sem vill geta haft frelsi til þess að skipta um húsnæði eftir þörfum og hvort leið félagsmálaráðherra henti eingöngu fólki sem vill búa í sínu húsnæði til lengri framtíðar.

Leiðir stjórnvalda mega ekki valda því að fólk geti ekki selt hús sín á frjálsum markaði.  Hvað á að gera þegar íbúð er seld, við þá uppsöfnuðu fjárhæð þess sem ef til vill verður einhvern tíma í framtíðinni afskrifað.  Flyst þessi fjárhæð yfir til nýja lántakandans og er hún talin með í skuldauppgjöri áhvílandi lána við sölu eða ekki.  Þarna skiptir verulegu máli hvort um hreina eignaupptöku verður að ræða, eða hvort báðir hópar þ.e. þeir sem búa áfram um aldur og ævi í húsnæðinu og þeir sem þurfa að skipta um húsnæði af ýmsum ástæðum, sitji við sama borð.

Vonandi verða allar leiðir komnar fram vel fyrir 1.nóvember næst komandi, jafnt frá stjórnvöldum sem og bönkum og öðrum lánastofnunum. 

Athyglisvert er að tillögur Íslandsbanka er ekki að finna á heimasíðu bankans (eða var þar ekki þegar ég skoðaði síðuna núna í morgun).

Það bera að fagna því að núna loksins skuli þó komin einhver skriður á þessi mál, sem ekki mátti minnast á fyrstu mánuðina eftir hrun.


mbl.is 25% lækkun höfuðstóls lánanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattlagning inngreiðslu í lífeyrissjóði

Að skattleggja lífeyrissjóðinn áður en hann fer inn í sjóðina án þess að það hafi áhrif á útborgun launa hjá launþegum er snjöll hugmynd.   Af hverjum 100.000 króna launum eru í dag greiddar kr. 12.000 (almennt) í lífeyrissjóði (launþegi og atvinnurekandi samanlagt).  Ef þetta yrði skattlagt á leiðinni inn í sjóðina þá þýðir það kr. 4.464 í staðgreiðslu (37,2%) árið 2009.   Af þessu fengi ríkið kr. 2.892 (24,1%) og sveitarfélag viðkomandi einstaklings kr. 1.572.  Þessi aukna skattheimta myndi skila ríkissjóði gríðarlegum tekjum og er í raun ígildi þess að skattprósenta væri hækkuð um 4,65% (í því tek ég ekki tillit til persónuafsláttar en prósentan á almenn laun þyrfti að hækka heldur meira til að vega upp á móti persónuafslætti).

Það er furðulegt hvað hugmynd um breytta aðferð við skattlagningu á sér lítið fylgi ennþá og hversu lítið hefur verið gert til þess að reikna það dæmi út og útskýra betur.  Það á ekki að vera mjög flókið að reikna út hvað þetta þýði miklar tekjur á ársgrundvelli.  Fjármálaráðherra hefur ekki ennþá kynnt samsetningu á hækkun skatta næsta árs og ég hvet hann til að skoða þessa leið vandlega.

Þessi nýja aðferð við skattlagningu er ígildi að minnsta kosti 4,65% í hækkun staðgreiðslu eins og fyrr segir og það væri mikill munur ef ekki þyrfti að hækka staðgreiðslu úr 37,2% í 41,85% með því að fara þessa leið.  Sveitarfélögin þyrftu auk þess ekki að hækka útsvarsprósentu eða hækka þjónustugjöld jafnmikið og gert er ráð fyrir og jafnvel ekkert.  Þessi skattlagning er ígildi 1,6375% hækkunar útsvarsprósentu og ígildi 3,0125% hækkunar tekjuskatts.  Í dag er meðalútsvar 13,1% og tekjuskattur 24,1%.  Hámarksútsvar skv. lögum má mest vera 13,28% og því er þarna um mikla tekjuaukningu sveitarfélagana að ræða án þess að breyta hámarki útsvars.

Kostir þessa eru m.a. a) stórauknar tekjur fyrir ríkissjóð og sveitarfélög (ekki veitir af núna), b) ekki þarf að hækka beina skatta eins mikið og jafnvel minnka niðurskurð ríkisútgjalda, c) þjónustugjöld sveitarfélaga þyrftu ekki að hækka um næstu áramót, d) verðbólga hækkar ekki og þar af leiðandi hefur þetta ekki áhrif á vísitölutryggð lán, e) ekki þarf að skattleggja lífeyrir við útgreiðslu sem þýðir meiri ráðstöfunartekjur fyrir lífeyrisþega, f) útborguð laun launþega skerðast ekki frá því sem nú er

Ókostir eru a) minni fjárhæð greiðist inn í lífeyrissjóði og þar af leiðandi er um lægri höfuðstól að ræða sem aftur veldur lægri ávöxtun í krónum talið á söfnunartímanum, b) lægri fjárhæð greiðist við töku lífeyris (sem á móti skattleggst ekki), c) minni ráðstöfunartekjur lífeyrissjóðanna til fjárfestina (en miðað við hvernig þeir fóru með peninga þá er það nú kannski frekar kostur en galli).

Inn í lífeyrissjóði færu nefnilega í stað kr. 12.000 kr. 7.536 af hverjum 100.000 krónum í laun.   Það er gott verkefni fyrir tryggingastærðfræðinga að reikna út ávöxtun miðað við þessar tvær fjárhæðir og sjá hvernig staða hvers lífeyrisþega er þegar kemur að útborgun.   Eins og staðan er í dag þá er við töku lífeyris reiknuð staðgreiðsla (á móti kemur auðvitað persónuafsláttur að hluta) og því er það svo að sama hver ávöxtunin er, ríkið og sveitarfélög taka sinn hluta þegar kemur að útborgun í núverandi kerfi.

Við ofangreinda breytingu væri það þannig að ríki og sveitarfélög væru ekki að skattleggja lífeyrisþega sem þýðir einhverjar tapaðar tekjur frá þeim hópi, en væntanlega brot af því sem inn í kassann kemur.

Breytt aðferð jafngildir því 12,5% hækkun tekjustofna sveitarfélaga og ríkissjóðs af beinum launatekjum.  Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað þetta þýðir samtals í krónum á ársgrundvelli fyrir ríkið og sveitarfélögin, en þessar stóru prósentutölur segja mér að þarna sé um verulega fjármuni að ræða sem geti hjálpað til við að stoppa upp í fjárlagagatið og hjálpað til við að koma ríki og sveitarfélögum fyrr út úr kreppunni.


« Fyrri síða

Um bloggið

Jón bloggar

Höfundur

Jón Óskarsson
Jón Óskarsson
Áhugamaður um fréttir og málefni líðandi stundar.  Er viðurkenndur bókari og tek sem slíkur að mér skattskil, ársuppgjör, bókhald og launaútreikninga.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband