2.12.2009 | 11:45
Stórgallaðar skattatillögur
Breytingar á skattalögum sem ríkisstjórnin vill helst lauma hratt í gegnum Alþingi og helst án umræðu eru mein gallaðar að mörgu leiti. Mig langar að benda á nokkur atriði:
Þriggja þrepa tekjuskattskerfi með flóknum millifærslumöguleikum eyðileggur kerfið. Um það þarf ekki að hafa fleiri orð.
Jöfnuður milli samskattaðra einstaklinga er ekki lengur til staðar, en ég vil meina að eitt mesta framfaraspori í launajafnréttismálum hafi verið náð eftir að persónuafsláttur var færanlegur að fullu milli aðila og sama skattprósentan var á öll laun beggja framteljenda. Í fyrirliggjandi tillögum er þetta eyðilagt og í stað þess að setja fram í tillögunum fjárhæðir miðað við einstakling annars vegar og samskattaða aðila hins vegar þá er verið að búa til flókið kerfi á millifærslum. Einfalt væri að segja að lægsta þrep næði upp í kr. 2.400.000 á ári hjá einstaklingi en kr. 4.800.000 hjá hjónum eða samsköttuðum einstaklingum. (Reyndar vildi ég sjá þetta sem 3.000.000/6.000.000).
Þrepin í skattkerfinu eru líka furðulega lág. Þannig er miðað við 200.000 á mánuði, en ekki t.d. 250.000 í lægsta þrepi. Einnig er það sem ekki hefur farið hátt í umræðunni verið að auka langmest skattana á þá sem hafa tekjur á milli 650.000 og 700.000 en ekki verið að hækka neitt að ráði þá sem eru yfir 700.000. Ég hefði viljað sjá þrepin fyrst þau eru að koma miðuð við 250.000 og 700.000.
Á síðasta ári var settur á (1.júlí) hátekjuskattur þannig að laun yfir 700.000 fengu á sig 32,1% skatt auk útsvars en á árinu 2010 fer þetta í 33% auk útsvars. Hins vegar þá voru laun á bilinu frá 650.001 til 700.000 að fá á sig 24,1% skatt árið 2009 en fara nú í 33% eða hækka um 8,9 prósentustig á einu bretti (tekjuskattsfjárhæð hækkar semsagt um 37% fyrir þetta launabil).
Fjármagnstekjuskatt er verið að hækka um 80% (úr 10% upp í 18%, hækkaði reyndar upp í 15% 1.júlí), en tækifærið er ekki nýtt til þess að skilgreina skattinn upp á nýtt og hætta að túlka hann eingöngu sem tekjuskatt og láta sveitarfélögin njóta hluta af þessum tekjum. (Frítekjumarkið mætti lenda af sama þunga á bæði ríki og sveitarfélögum).
Auðlegðarskatturinn er furðulegt fyrirbæri, en þar er miðað við hreina eign upp á yfir 90 milljónir hjá einstaklingi en 120 milljónir hjá þeim sem telja fram saman. Þarna er verið að skapa aðstæður til þess að fólk óski eftir því að telja ekki saman fram og þar með fær hópur sem á þetta miklar eignir skatta á sig sem einstaklingar en ekki sambýlingar. Ríkið gæti hæglega orðið af miklum tekjum vegna þessa og ég skil ekki hverjum er verið að hlífa þarna. Kannski þekktum athafnahjónum ?
Auk þess er inn í útreikningi á hreinni eign þeirra sem geta lent í auðlegðarskattinum mjög flókinn útreikningur á hlutabréfaeign og mér sýnist ljóst að taka þurfi upp álagningu hjá þessum hópi á hverju ári, eftir að endanleg álagning á fyrirtæki liggur fyrir og allir ársreikningar hafa skilað sér.
Þetta eru bara nokkur atriði sem auðvelt er að lagfæra í tillögunum án þess að kollvarpa skattahugmyndunum í heild sinni.
Um bloggið
Jón bloggar
Tenglar
Mínir tenglar
- Ég trúi á betra líf Í tilefni dagsins set ég þetta lag inn, því textinn skiptir mig máli.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.