18.3.2010 | 09:16
Vanhæfi millistjórnenda banka
Það er alveg ljóst að fjölmargir millistjórnendur í bankakerfinu gamla hafa verið algjörlega vanhæfir í starfi. Mjög margt af þessu fólki er ennþá í góðum stöðum hjá nýju bönkunum og það hefur vakið furðu mína alveg frá hruni, hversu auðveldlega þessu fólki gengur að fá störf innan sömu fjármálastofnana og það vann í raun fyrir áður, þó nú sé komin ný kennitala og breytt eignarhald.
Það kemur mér ekki á óvart að í ljós séu að koma upplýsingar um að skattgreiðslur hafi verið vantaldar og það er fagnaðarefni að þetta sé að koma í ljós núna. Ég hef í sí auknu mæli orðið var við það síðari ár að "mistök" hafi verið gerð við sölu hlutabréf og sölu allskyns verðbréfa innan bankanna varðandi það að draga staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af hagnaði viðskiptanna. Í þessum tilfellum þá tryggði ég það að framteljendur teldu fram ógreiddan fjármagnstekjuskatt og gerðu sitt upp, en það pirraði bæði mig og viðkomandi skattgreiðendur að þessu hefði ekki verið haldið eftir eins og lög gera ráð fyrir. En ég verð að segja að mig óraði ekki fyrir því að þetta hefði verið í jafn miklu mæli og nú er að koma í ljós.
Í kjölfar hrunsins haustið 2008 þá voru peningamarkaðssjóðir (hvaða nafni sem nefnast) greiddir út að því marki sem fjármagn var til. Við þessa útgreiðslu var allt í vitleysu hjá bönkunum og það var hreint ekki auðvelt að ná fram upplýsingum á síðasta vori varðandi þessi viðskipti, svo skattskil þeirra sem að útleystu sína fjármuni væru rétt. Þarna var það nánast reglan að staðgreiðslunni var ekki haldið eftir, eins og að þessi viðskipti hefðu öll verið með tapi. Það var alls ekki svo og þeir sem voru búnir að eiga í sjóðunum lengi voru oft að fá talsverðar fjármagnstekjur.
Það þarf því að skoða ekki síður hvernig viðskiptum var háttað í kringum hrunið og kanna nú þegar hvernig staðið hefur verið að þessum málum í nýju bönkunum frá stofnun þeirra. Ég er býsna hræddur um það að vandamál sem áður voru til staðar, séu þar ennþá.
Það eru ekki fyrirtæki og stofnanir sem gera mistök af þessu tagi, það er fólk. Í fjármálafyrirtækjunum vann fólk sem sagt var að hefði góða menntun og þekkingu. Stjórnendur, hvort sem þeir töldust deildarstjórar, millistjórnendur eða hærra settir, fengu ofurbónusa fyrir það hversu frábært og hægt starfsfólk þetta væri. Nú hefur heldur betur komið í ljós með vanhæfi þess, þekkingarskort og hreinlega vilja til saknæmra athafna. Það þarf að draga þessa einstaklinga til ábyrgðar og refsinga.
Vantöldu um 127 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Jón bloggar
Tenglar
Mínir tenglar
- Ég trúi á betra líf Í tilefni dagsins set ég þetta lag inn, því textinn skiptir mig máli.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 1068
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það vantaði ekki menntunina í bankakerfið, því bankarnir voru uppfullir af viðskiptafræðingum, hagfræðingum, fjármálaverkfræðingum, lögfræðingum, endurskoðendum og öðru háskólalærðu fólki, af öllum sviðum. Það sem vantaði var kunnátta, verksvit og siðferði, enda virðist nánast allt sem skoðað er í starfsemi þessara fyrirtækja vera ólöglegt og siðlaust.
Þess vegna er furðulegt, að þessum fyrirtækjum skuli vera stjórnað að mestu leiti af sama fólkinu áfram, enda varla við að búast, að vinnubrögðin í nýju bönkunum séu miklu betri en þau voru í þeim gömlu. Enda eru nú farnar að heyrast aftur raddir um bónusa og að skilanefndirnar yfirbjóði nýju bankana í launum, til að laða til sín "hæfasta" fólkið úr nýju bönkunum.
Því hef ég verið að leggja það til á mínu bloggi, að störf Rannsóknarnefndar Alþingis verði framlengd og henni falið að rannsaka starfsemi skilanefnda gömlu bankanna eftir hrun, ásamt því sem hefur verið að gerast í nýju bönkunum.
Telja má víst, að ýmislegt fróðlegt kæmi út úr slíkri rannsókn.
Axel Jóhann Axelsson, 18.3.2010 kl. 10:50
Já svo sannarlega væri þörf á því að rannsaka það sem gerðist í kjölfar hrunsins. Það er ekki vafi að mörgu var stungið undið stól, margt fór í pappírstætarana og eins og dæmin hafa sýnt var yfir 50% þeirra sem fóru í skilanefndirnar fyrrum starfsmenn og jafnvel yfirmenn þeirra banka sem þeir voru nú að gera upp og halda utan um og fjölmargir gerðu sjálfa sig að yfirmönnum í nýju bönkunum beint úr skilanefndum. Það dugir að nefna Finn bankastjóra Arion, Ásmund Landsbankastjóra, og svo þann (sem ég man ekki hvað heitir) sem var almesti snillingurinn af þeim öllum, áður yfirmaður innra eftirlits Kaupþings, þaðan í skilanefnd og þaðan aftur í stöðu yfirmanns innra eftirlits í Nýja Kaupþingi.
Hvort sem þessir ágætu menn eru heiðarlegir eða ekki þá er þetta allavega með öllu siðlaust.
Það mætti líkja þessu við að Lalli Johns (svo frægt nafn sé nefnt) myndi rannsaka eigin innbrot og ákveða í framhaldi refsinguna.
Viðbrögð nokkurra stjórnarþingmanna voru þó nokkuð skondin og svo sem alveg dæmigerð þegar raddir fóru að heyrast um bónusa í bönkunum. Auðvitað var fyrsta hugsun að hækka hátekjuskattinn. Ekki að spyr maður nú að VG.
Jón Óskarsson, 18.3.2010 kl. 16:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.