Skattlagning inngreiðslu í lífeyrissjóði

Að skattleggja lífeyrissjóðinn áður en hann fer inn í sjóðina án þess að það hafi áhrif á útborgun launa hjá launþegum er snjöll hugmynd.   Af hverjum 100.000 króna launum eru í dag greiddar kr. 12.000 (almennt) í lífeyrissjóði (launþegi og atvinnurekandi samanlagt).  Ef þetta yrði skattlagt á leiðinni inn í sjóðina þá þýðir það kr. 4.464 í staðgreiðslu (37,2%) árið 2009.   Af þessu fengi ríkið kr. 2.892 (24,1%) og sveitarfélag viðkomandi einstaklings kr. 1.572.  Þessi aukna skattheimta myndi skila ríkissjóði gríðarlegum tekjum og er í raun ígildi þess að skattprósenta væri hækkuð um 4,65% (í því tek ég ekki tillit til persónuafsláttar en prósentan á almenn laun þyrfti að hækka heldur meira til að vega upp á móti persónuafslætti).

Það er furðulegt hvað hugmynd um breytta aðferð við skattlagningu á sér lítið fylgi ennþá og hversu lítið hefur verið gert til þess að reikna það dæmi út og útskýra betur.  Það á ekki að vera mjög flókið að reikna út hvað þetta þýði miklar tekjur á ársgrundvelli.  Fjármálaráðherra hefur ekki ennþá kynnt samsetningu á hækkun skatta næsta árs og ég hvet hann til að skoða þessa leið vandlega.

Þessi nýja aðferð við skattlagningu er ígildi að minnsta kosti 4,65% í hækkun staðgreiðslu eins og fyrr segir og það væri mikill munur ef ekki þyrfti að hækka staðgreiðslu úr 37,2% í 41,85% með því að fara þessa leið.  Sveitarfélögin þyrftu auk þess ekki að hækka útsvarsprósentu eða hækka þjónustugjöld jafnmikið og gert er ráð fyrir og jafnvel ekkert.  Þessi skattlagning er ígildi 1,6375% hækkunar útsvarsprósentu og ígildi 3,0125% hækkunar tekjuskatts.  Í dag er meðalútsvar 13,1% og tekjuskattur 24,1%.  Hámarksútsvar skv. lögum má mest vera 13,28% og því er þarna um mikla tekjuaukningu sveitarfélagana að ræða án þess að breyta hámarki útsvars.

Kostir þessa eru m.a. a) stórauknar tekjur fyrir ríkissjóð og sveitarfélög (ekki veitir af núna), b) ekki þarf að hækka beina skatta eins mikið og jafnvel minnka niðurskurð ríkisútgjalda, c) þjónustugjöld sveitarfélaga þyrftu ekki að hækka um næstu áramót, d) verðbólga hækkar ekki og þar af leiðandi hefur þetta ekki áhrif á vísitölutryggð lán, e) ekki þarf að skattleggja lífeyrir við útgreiðslu sem þýðir meiri ráðstöfunartekjur fyrir lífeyrisþega, f) útborguð laun launþega skerðast ekki frá því sem nú er

Ókostir eru a) minni fjárhæð greiðist inn í lífeyrissjóði og þar af leiðandi er um lægri höfuðstól að ræða sem aftur veldur lægri ávöxtun í krónum talið á söfnunartímanum, b) lægri fjárhæð greiðist við töku lífeyris (sem á móti skattleggst ekki), c) minni ráðstöfunartekjur lífeyrissjóðanna til fjárfestina (en miðað við hvernig þeir fóru með peninga þá er það nú kannski frekar kostur en galli).

Inn í lífeyrissjóði færu nefnilega í stað kr. 12.000 kr. 7.536 af hverjum 100.000 krónum í laun.   Það er gott verkefni fyrir tryggingastærðfræðinga að reikna út ávöxtun miðað við þessar tvær fjárhæðir og sjá hvernig staða hvers lífeyrisþega er þegar kemur að útborgun.   Eins og staðan er í dag þá er við töku lífeyris reiknuð staðgreiðsla (á móti kemur auðvitað persónuafsláttur að hluta) og því er það svo að sama hver ávöxtunin er, ríkið og sveitarfélög taka sinn hluta þegar kemur að útborgun í núverandi kerfi.

Við ofangreinda breytingu væri það þannig að ríki og sveitarfélög væru ekki að skattleggja lífeyrisþega sem þýðir einhverjar tapaðar tekjur frá þeim hópi, en væntanlega brot af því sem inn í kassann kemur.

Breytt aðferð jafngildir því 12,5% hækkun tekjustofna sveitarfélaga og ríkissjóðs af beinum launatekjum.  Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað þetta þýðir samtals í krónum á ársgrundvelli fyrir ríkið og sveitarfélögin, en þessar stóru prósentutölur segja mér að þarna sé um verulega fjármuni að ræða sem geti hjálpað til við að stoppa upp í fjárlagagatið og hjálpað til við að koma ríki og sveitarfélögum fyrr út úr kreppunni.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jón bloggar

Höfundur

Jón Óskarsson
Jón Óskarsson
Áhugamaður um fréttir og málefni líðandi stundar.  Er viðurkenndur bókari og tek sem slíkur að mér skattskil, ársuppgjör, bókhald og launaútreikninga.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband